Við grunnskóladeild Reykhólaskóla er starfandi nemendafélag sem starfar að hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og vinnur að því að halda uppi öflugu félagsstarfi allra bekkjardeildar í samstarfi við starfsfólk Reykhólaskóla og starfsfólk félags- og tómstundastarfs. Allir nemendur grunnskóladeildar eru í nemendafélagi Reykhólaskóla en nemendur á elsta stigi 8.-10. bekkjar skipa saman stjórn þess og funda reglulega um málefni félagsins. Á hverju hausti kjósa nemendur á elsta stigi úr sínum hópi til embætta formanns, varaformanns og ritara nemendafélagsins sem saman gegna hlutverki miðstjórnar nemendafélagsins á skólaárinu. Fulltrúar úr miðstjórn nemendafélagsins eiga sæti í skólaráði, stýrihópi heilsueflandi grunnskóla og funda mánaðarlega með skólastjóra um hagsmuna- og velferðarmál nemenda.
Nemendafélag Reykhólaskóla
Starfsreglur
1. gr.
Heiti félags
Nafn félagsins er Nemendafélag Reykhólaskóla og starfar félagið á grundvelli 10. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.
2. gr.
Félagsaðild og aðsetur
Allir nemendur grunnskóladeildar teljast félagar í Nemendafélagi Reykhólaskóla. Aðsetur félagsins er í Reykhólaskóla, Skólabraut 1, 380 Reykhólum.
3. gr.
Tilgangur og markmið
Tilgangur og markmið félagsins er að starfa að félags-, hagsmuna- og velferðamálum nemenda Reykhólaskóla og halda uppi öflugu félagastarfi er varðar allar bekkjardeildir Reykhólaskóla.
4. gr.
Stjórn félags
Stjórn félags skal skipuð öllum nemendum 8.-10. bekkjar á elsta stigi grunnskólans en kosið er sérstaklega í embætti formanns, varaformanns og ritara sem starfar sem miðstjórn nemendafélagsins. Aðrir nemendur í stjórn teljast meðstjórnendur félagsins. Umsjónarmaður nemendasjóðs er skipaður árlega af skólastjóra Reykhólaskóla og gegnir hlutverki gjaldkera.
5. gr.
Kosningar
Kosning í embætti formanns, varaformanns og ritara nemendafélagsins til miðstjórnar félagsins skal fara fram á hverju hausti fyrir 15. september ár hvert. Kjörgengir til embættissetu eru allir nemendur í 8.-10. bekk á elsta stigi og kosningarétt hafa allir hinir sömu. Nemendafélag skal óska eftir framboðum til kjörinnar embættissetu og er heimilt að halda fund þar sem frambjóðendur kynna stefnu sína og áherslur fyrir kjósendum. Til kosningar embætta skal halda leynilegar kosningar þar sem einfallt atkvæðavægi ræður úrslitum. Falli atkvæði að jöfnu skal hlutkesti ráða úrslitum milli frambjóðenda.
6. gr.
Fundir nemendafélags
Nemendafélagið fundar aðra hverja viku og skal stjórn nemendafélags á fyrsta fundi sínum koma sér saman um fundaráætlun skólaársins og tilkynna skólastjórnendum. Meirihluta stjórnar félagsins er þó ávallt heimilt að óska eftir fundi um málefni utan skipulagðrar fundaráætlunar. Formaður stýrir fundum nemendafélags en allir stjórnarmenn hafa þar tillögu- og atkvæðarétt. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í kosningum mála á nemenda-félagsfundum. Falli atkvæði að jöfnu ræður atkvæði formanns nemendafélags úrslitum.
7. gr.
Stjórnarskyldur
Stjórn nemendafélags skal vera öðrum nemendum til fyrirmyndar í námi sínu, framkomu og störfum. Formaður nemendafélags kemur fram fyrir hönd félagsins gagnvart nemendum, starfsfólki og stjórnendum Reykhólaskóla. Varaformaður gengur í störf formanns og situr fyrir hann fundi í forföllum hans. Ritari nemendafélags skal halda utan um fundargerðir nemendafélagsfunda. Að öðru leiti skiptir stjórn félagsins með sér verkum. Formaður og varaformaður skulu sitja reglulega fundi með stjórnendum Reykhólaskóla og tómstundafulltrúa, eigi síðar en mánaðarlega til þess að fara yfir hagsmuna-, velferðar- og félagsmál nemenda. Formaður og varaformaður taka sæti í skólaráði Reykhólaskóla sem aðalmenn fyrir hönd nemenda og ritari nemendafélags sem varamaður nemenda í ráðinu. Formaður nemendafélags hefur einnig rétt til setu á fundum stýrihóps heilsueflandi grunnskóla í Reykhólaskóla.
8. gr.
Félagsstarf
Stjórn nemendafélagsins skal starfa að því að halda uppi öflugu félagsstarfi í þágu allra nemenda Reykhólaskóla með reglulegum viðburðum í samráði við skólastjórnendur óg tómstundafulltrúa sveitarfélagsins. Stjórn nemendafélags ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd viðburða á vegum félagsins. Stjórn félagsins skal leitast eftir því að færa gleði og ánægju inn í skólalíf nemenda með ýmsum uppákomum og klúbbastarfsemi á skólaárinu. Stjórn félagsins skal leggja fram viðburðadagatal eigi skemur en mánuð fram í tímann sem birt verði stjórnendum, starfsfólki og nemendum skólans.
9. gr.
Hagsmunagæsla nemenda
Stjórn nemendafélagsins lætur sig varða allt það sem getur stuðlað að aukinni félagslegri þátttöku nemenda og beitir sér gegn því að félagslíf nemenda skerðist á einn eða annan hátt vegna utanaðkomandi áhrifa. Stjórn nemendafélagsins sinnir einnig virkri hagsmunagæslu í þágu náms og velferðar nemenda og ánægjulegar upplifunar þeirra af skólastarfi. Formaður og varaformaður skulu leggja fram umsagnir og ábendingar stjórnar nemendafélagsins í þágu hagsmunagæslu nemenda fyrir á reglulegum fundum með skólastjórnendum.
10. gr.
Breytingar á starfsreglum
Breytingar á starfsreglum þessum þarf að bera upp á fundi nemendafélags og hljóta samþykki meirihluta stjórnar félagsins auk lögbundins samþykkis skólastjóra Reykhólaskóla. Skólastjóra Reykhólaskóla er einnig heimilt að bera upp fyrir á fundum félagsins tillögur að breytingum á starfsreglum sem hljóta þurfi samþykki meirihluta stjórnar nemendafélags.
