Virkisvetur og kvikspuni í Reykhólaskóla

27. nóvember 2025

Fyrstu lotu skólastarfsins lauk í seinni hluta október þar sem unnið var markvisst með útinám, samstarf, sköpun og tengsl við nærsamfélagið og sögu þess. Meginþema lotunnar var bókin Virkisvetur (1959) eftir Björn Th. Björnsson sem fjallar um merka atburði í sögu Reykhóla og fyrsta skotbardaga sem sögu fara af hér á landi. Sögusvið bókarinnar eru atburðir á Reykhólum veturinn 1482-1483 þar sem Andrés Guðmundsson launsonur Guðmundar ríka ræðst inn á Reykhóla með vopnað lið og erlenda byssumenn í þeirri von að endurheimta föðurarfleið sína. Andrés nær yfirráðum Reykhóla vegna fjarveru Þorleifs Björnssonar af ætt Skarðverja og hans manna. Tekur Andrés þar yfir steinhlaðið virki sem Þorleifur hafði reist til að verja Reykhóla fyrir árásum afkomenda Guðmundar ríka. Þann 3. janúar 1483 kom Þorleifur með mikið lið vopnaðra manna aftur að Reykhólum og réðst gegn Andrési og hans mönnum. Byssumenn úr liði Andrésar hófu mikla skothríð úr virkinu og féll einn maður í liði Þorleifs og margir særðust en Þorleifur náði staðnum þó aftur á sitt vald.

Nemendur í Reykhólaskóla unnu í lotunni með þetta þema úr sögu nærsamfélagsins þar sem bókin var lesin og fræðst var um sögu Reykhóla, umhverfi og lifnaðarhætti Breiðfirðinga á 15. öld. Um fjölþætt og þverfaglegt verkefni var að ræða sem unnið var með ýmis námsmarkmið listgreina, læsis og lesskilnings, samfélagsfræða, samvinnu og samstarf auk annarra markmiða. Nemendur á mið- og elsta stigi undirbjuggu kvikspuna (LARP) um atburðina 3. janúar 1483 sem haldinn var í Kvennó við lok lotunnar 23. október. Kvikspuni ólíkt leiksýningum er endurgerð á atburðum þar sem þátttakendur setja sig í hlutverk ákveðinna sögupersóna og lifa sig inn í söguna og atburði. Var nemendum úthlutað sögupersónum bókarinnar, settu sig inn í hugarheim þeirra, talsmáta og umhverfi fyrri tíma, gerðu búninga og leikvopn til að endurspegla tímabilið. Kvikspuninn heppnaðist einstaklega vel og kalt og stillt veðrið endurspeglaði fullkomlega lýsingu bókarinnar þessa sögulega atburða.