Skólamötuneyti

Nemendum Reykhólaskóla stendur til boða heitur matur í hádeginu alla virka daga skólaársins, fjölskyldum að kostnaðarlausu. Hádegismatur er matreiddur í eldhúsi skólans og tekur matseðillinn mið af leiðbeiningum Landlæknis um hollustu og næringu þar sem lagt er upp með að eldaður sé fyrir börnin hollur og fjölbreyttur matur sem unninn er úr góðu hráefni. Reykhólaskóli er einnig þátttakandi í verkefni Heilsueflandi grunnskóla í samstarfi við embætti Landlæknis þar sem áhersla er lögð á vinna að bættu matarræði, heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks. Öllum nemendum skólans er boðið upp á morgunmat milli kl. 8:00-8:25 á morgnanna, hádegismat og ávaxtahressingu á morgnanna og eftir hádegi. Matseðill Reykhólaskóla er birtur á heimasíðu skólans og uppfærður fyrir hvern mánuð. 

Matseðill skólamötuneytis Reykhólaskóla uppfærður mánaðarlega 

Handbók fyrir grunnskólamötuneyti frá embætti landlæknis

Upplýsingar um heilsueflandi grunnskóla

Upplýsingar um heilsueflandi leikskóla

Þótt skólamáltíðir séu gjaldfrjálsar í Reykhólaskóla er mikilvægt fyrir mötuneyti skólans að hafa yfirsýn til innkaupa og takmörkunar á matarsóun. Forráðamenn nemenda þurfa því í upphafi hvers skólaárs að skrá nemendur í mataráskrift eftir dögum vikunnar á sérstöku skráningareyðublaði mötuneytis þar sem einnig er óskað eftir því að forráðamenn upplýsi skólastjórnendur um ofnæmi eða óþol nemenda sé það til staðar. Ávallt er hægt að segja upp skráningu með skriflegri tilkynningu til skólans eða gera breytingu á mataráskrift nemanda með því að útfylla nýtt skráningareyðublað og koma því staðfestu til stjórnenda skólans. 

Skráningareyðublað í skólamötuneyti Reykhólaskóla 2025-2026

Forráðamönnum er frjálst að senda nemendur með nesti í skólann og nemendum á elsta stigi er heimilt að fara af skólalóð og heim í hádegismat kjósi þeir svo. Nemendum á yngsta og miðstigi er óheimilt að fara af skólalóð í hádegismat en forráðamenn eldri nemenda á miðstigi geta óskað eftir því gagnvart skólastjóra og gert samkomulags þess efnis gagnvart skólanum.

Matreiðslumaður mötuneytis er Ólafur Örn Sigurðsson með netfangið: eldhus@reykholaskoli.is 

Verðskrá: Verð fyrir skólamáltíð haustið 2025

Matur fyrir nemendur er gjaldfrjáls. Verð fyrir starfsmenn er mánaðargjald er Kr. 9.300.-, stakur hádegisverður er Kr. 560.