Skipulag og inntak náms og kennslu 

Samkvæmt 2. grein laga um grunnskóla er hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, meðal annars að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Stuðla skal að víðsýni hjá nemendum, veita tækifæri til að nýta sköpunarkraft, efla sjálfstæða hugsun og frumkvæði. 

Grunnþættir menntunar 

Í aðalnámskrá eru sex grunnþættir menntunar sem eiga að endurspeglast í starfsháttum leik- og grunnskóla og vera þeirra leiðarljós. Þessir grunnþættir fléttast inn í allar greinar með einum eða öðrum hætti. Stefnan er að bjóða upp á heildstætt og samþætt nám sem grunnþættir og lykilhæfni stýra og stjórna. 

Grunnþættirnir eru: 

– Læsi 

– Sjálfbærni 

– Heilbrigði og velferð 

– Lýðræði og mannréttindi 

– Jafnrétti 

– Sköpun 

Leikur og nám byggt á grunnþáttum 

Í Reykhólaskóla eru námsvísar fyrir leik-og grunnskóla sem vísa veginn hvernig skólinn útfærir markmið aðalnámskrár, leiðir að þeim og hvernig staðið er að mati. Námsvísarnir eru stóru steinarnir í starfi skólans og vísa þeir veginn og taka mið af á aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Í námsvísinum kemur fram hvernig grunnþættirnir leiða val á skipulagi og vali á námsþáttum. Í námsvísi kemur fram hvaða lykilhæfni er verið að leggja áherslu á, hvert viðfangsefnið er og hvaða kennsluaðferðum eigi að beita. 

Námsvísir skólans tryggir að grunnþættir menntunar séu notaðir til að stýra náminu. Hér má kynna sér gildandi námsvísi skólans sem eru uppfærðir árlega. 

Tilhögun kennslu á grunnskólastigi 

Samkennsla er við Reykhólaskóla. Skólinn skiptist í þrjá námshópa eftir stigum; 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Stundatöflur og aðrar upplýsingar um nemendur eru að finna í Mentor og eru aðgengilegar foreldrum og aðstandendum. Frekara skipulag náms og kennslu hvers skólaárs er að finna í starfsáætlun hvers skólaárs. 

Skipulag náms birtist í  þriggja ára námsvísi skólans sem má skoða hér: Námsvísir 2025-2026 . Námsvísirinn er skiptur upp í sex lotur með ólíkum þema og áherslum. Námsvísirinn eru stóru steinarnir í starfinu og vísa veginn um skipulag, markmið og mat. Kennarar grunnskólastigs útbúa kennsluáætlanir sem endurspegla áherslur námsvísisins. Þannig tryggja kennarar að útfærsla á aðalnámskrá byggi á þeim megináherslum sem þar birtast.

Mentor 

Grunnskóladeild notar skólaumsjónarkerfi Mentor til að halda utan um námsskipulag, kennsluáætlanir, námsframvindu og skólasókn nemenda. Umsjónarkerfi Mentir er helsta samskiptaleið skólans við foreldra og forráðamenn þar sem tilkynningar og fréttir af skólastarfi eru birtar og þar er einnig að finna dagatal með viðburðum skólaársins. Ætlast er til að forráðamenn tilkynni forföll nemenda í Mentor og þar er hægt að bóka skráða viðtalstíma hjá kennurum og leiðbeinendum grunnskóladeildar.

Útinám 

Útinám og kennsla í Reykhólaskóla fer fram í nærumhverfi skólans og á Reykhólum. Útinám snýst um upplifun, sköpun og skynjun í umhverfinu. Með útinámi opnast mörg ný tækifæri til náms, sem veita nemendum líkamlega og skynræna upplifun. Áhersla er lögð á reynsluna sem byggist á þeirri almennu forsendu að nemandinn læri best með því að takast sjálfur á við

verkefnið. Útinám og kennsla er samþætt við aðrar námsgreinar með áherslu á hreyfingu, seiglu og samþættingu sérstaklega í samfélagsfræði og náttúrufræði. Markmiðið með útináminum er að skapa tengsl milli einstaklinga, náttúru og samfélags og að stuðla að alhliða þroska nemenda. 

Tengsl við nærsamfélagið og staðartengd menntun 

Reykhólaskóli er umvafinn fallegu umhverfi og skólinn leggur áherslu á að nemendur og starfsfólk vinni náið með nærsamfélaginu í því skyni að auka m.a. námsáhuga og öðlast víðsýni. Mikilvægt er að nemendur séu í tengslum við umhverfi sitt með því að vera í náttúrunni, skynja hana og njóta. Með staðartengdri menntun sem kennsluaðferð er lögð áhersla á að nemendur skilji heiminn og umhverfi sitt í gegnum reynsluna en ekki einungis í gegnum bóknám, ásamt því að hvetja nemendur til að vera virkir þátttakendur í eigin samfélagi. Staðbundin menntun vísar til námsferils sem byggir á sögum sem eiga rætur að rekja til ákveðins staðar, einstökum sögulegum staðreyndum, umhverfi, menningu og hagkerfi. Nemendur fræðast um staðinn á staðnum sem er m.a. uppspretta sjálfsmyndar okkar og styrkleikinn liggur í að skapa tengsl milli fólks og staða.