Kæru nemendur, foreldrar og aðrir velunnarar Reykhólaskóla,
Skólastarf Reykhólaskóla í desembermánuði var mjög vel heppnað þar sem nemendur lögðu sig fram í náminu og héldu glæsilega og vel sótta fullveldishátið með starfsfólki skólans. Á aðventunni var þó óprúttinn jólaálfur á kreiki í skólanum og reyndi að valda truflun á skólastarfinu með ýmsum uppátækjum. Nemendur og starfsfólk létu það þó ekki á sig fá, höfðu fremur gaman af uppátækjunum og héldu ótrauð áfram í undirbúningi jóla þar sem jólagleðin var í fyrirrúmi.
Starfsfólk Reykhólaskóla vill þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið á önninni. Það hefur verið einstaklega gefandi og skemmtilegt að fylgjast með framförum nemenda okkar og þeirri miklu gleði sem hefur einkennt skólastarfið til þessa. Skóli hefst að nýju mánudaginn 5. janúar og við hlökkum til að taka á móti nemendum á nýju ári.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár,
starfsfólk Reykhólaskóla

