Nemendaverndarráð, farsældar- og forvarnarteymi
Nemendaverndarráð Reykhólaskóla starfar samkvæmt reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum. Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf, sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs. Í nemendaverndarráði sitja skólastjórnendur, skólahjúkrunarfræðingur og félagsmálafulltrúi. Hægt er að kalla skólasálfræðing skólans og sérfræðinga á vegum Ásgarðs inn á fundi nemendaverndarráðs ef þurfa þykir. Allar umsóknir um stoðþjónustu nemenda og/eða nemendahópa þurfa að fara í gegnum nemendaverndarráð sem fer yfir og metur umsóknir og kemur erindum í farveg. Umsjónarkennari, námsráðgjafi og/eða foreldrar sækja um aðstoð ráðsins á sérstöku eyðublaði og þurfa foreldrar alltaf að vera upplýstir ef mál barnsins þeirra fer fyrir ráðið. Nemendaverndarráð fundar mánaðarlega á starfstíma skólans og fundar þegar þurfa þykir og ef a.m.k. tveir fulltrúar í ráðinu óska þess. Fundargerðir eru trúnaðarmál og öll gögn ráðsins eru geymd í læstum skjalaskápum.
Í nemendaverndarráði Reykhólaskóla 2025-2026 sitja:
Anna Margrét Tómasdóttir, skólastjóri og fulltrúi nemendaþjónustu
Kjartan Þór Ragnarsson, tengiliður farsældar og deildarstjóri Reykhólaskóla
Hlíf Hrólfsdóttir, félagsmálastjóri
Þórunn Björk Einarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur
Linkur á starfsáætlun og starfshætti nemendaverndarráðs.
Nemendaverndarráð skólans er jafnframt farsældarteymi skólans og fylgir því eftir innleiðingu laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Nemendaverndarráð gegnir einnig hlutverki forvarnarteymis skólans sem starfar samkvæmt forvarnaráætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga.
