Saga skólans
Fyrstu heimildir um skólahald í Reykhólahreppi eru frá 1909 en það var farskóli. Það var þó ekki án vandræða því bæði ráðamenn og stór hluti íbúa hafði lítinn áhuga á að halda starfinu úti. Haustið 1922 hófst barátta fyrir skóla á Reykhólum. Ungmennafélag norður Breiðfirðinga reisir sundlaug 1943-1950 og með því sundlaugarhúsnæði á tveimur hæðum og gefur Reykhólahrepp. Á þeim tíma varð meiri krafa um skóla á svæðinu og ákveðið var að Gufudals-, Reykhóla-, og Geiradalshreppur yrði eitt skólahverfi og stæðu að rekstri skólans. Á Stað var á þessum tíma rekinn unglingaskóli.
Fyrstu 10 ár eftir stofnun heimavistarskólans Reykhólaskóla var hann staðsettur í sundlaugarhúsnæðinu. Mikil áhersla var frá upphafi á sundkennslu enda talin mikilvæg fyrir fólk sem bjó við Breiðafjörð. Skólastjórinn hafði þá 10m² herbergi fyrir sig og fjölskyldu sína.
Ný bygging var tekin í notkun 1959 en það var heimavist og smá námsrými og fluttist því skólin úr sundlaugarhúsnæðinu. Á þeim tíma voru margir í heimavist en frá nokkrum bæjum í nágrenninu gengu börn í skólann. 1972 var enn önnur bygging tekin í notkun með tengingu á milli húsa. Þá var komið pláss fyrir bókasafn, heimavist, borðstofu, setustofu, sturtuklefa, skólastofu og ýmislegt fleira. 1976 var byggt enn meira við. Það tókst ekki að klára þá viðbyggingu áður en hún brann. Það tókst að klára bygginguna og taka í notkun 1979.
Eftir þetta fjölgaði jafnt og þétt í þorpinu og færri voru á heimavist. Heimavistin var á endanum lögð niður í kring um 1990. Allt húsnæðið er notað undir skólahald í dag auk þess að byggt var íþróttahús og tekið í notkun 2006.